Unglegur blær yfir lista Vinstri grænna í NV-kjördæmi!
23.4.2009 | 12:40
Með því að kjósa Vinstri græn í Norðvesturkjördæmi ertu með beinum hætti að kjósa ungt fólk til verks og áhrifa. Listinn hefur einstaklega unglegan blæ yfir sér sem gefur honum sérstöðu á landsvísu. Í þriðja sæti listans, baráttusætinu, er ungur bóndi, Ásmundur Einar Daðason, 27 ára, 4. sæti listans skipar Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, 28 ára, 5. sæti listans skipa ég sjálf, Telma Magnúsdóttir, 26 ára, 7. sæti listans skipar Páll Rúnar Heinesen Pálsson, 27 ára og 8. sæti listans skipar Hjördís Garðarsdóttir 30 ára. Því til samanburðar er áhugavert að skoða aldur 5 efstu frambjóðenda annarra lista í kjördæminu en þar er yngsti frambjóðandi á lista 33 ára. Það er því nokkuð ljóst að hjá hinum framboðunum var ungt fólk ekki kosið til áhrifa á meðan að ungt fólk í framboði Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi fékk yfirburða kosningu af félögum Vg í kjördæminu. Það liggur því í augum uppi að Vinstri græn vilja gera ungu fólki kleift að hafa áhrif í verki.
Ungt fólk lætur til sín taka
Það er nokkuð ljóst að vitundarvakning hefur orðið meðal ungs fólks í kjölfar efnahagshrunsins og gjörbreyttra aðstæðna í íslensku samfélagi. Það var ekki síst yngri kynslóðin sem stóð og barði potta og pönnur til að stoppa fyrir fullt og allt þessa óráðsíu og peningapartý sem komið hafa íslensku þjóðinni á bólakaf í skuldapoll. Ungt fólk er í dag meðvitaðara um samfélagið sitt og vill og verður að hafa áhrif. Ljóst er að á næstu mánuðum og árum verða gerðar stórvægar breytingar á íslensku samfélagi og við unga fólkið sem erum stór og mikilvægur hluti af þessu samfélagi viljum koma að því. Við ætlum að fjölga Íslendingum, stofna fjölskyldur, koma okkur fyrir á vinnumarkaðnum, fjárfesta í húseign og bíl og svo mætti lengi telja. Það erum við og okkar börn sem sem þurfum að byggja hér upp nýtt og réttlátt samfélag.
Hvert mannsbarn á að eiga jafnan rétt á menntun óháð efnahag og stöðu
Vinstri græn hafa lagt megináherslu á menntamál, menntakerfi sem tryggir öllum landsmönnum jafnan aðgang að fjölbreyttri og skapandi menntun. Við viljum sjá fjölgun háskólasetra á landsbyggðinni og aðgengi unglinga að framhaldsskólum án þess að þeir þurfi að flytja að heiman 16 ára og framfleyta sjálfum sér á heimavist eða í leiguíbúð. Burtséð frá þeim kostnaði sem slíkt hefur í för með sér, þá á að tryggja ungu fólki þann kost að hafa val um menntun í heimabyggð og búa hjá fjölskyldu sinni til 18/20 ára aldurs.
Auk þessa vilja Vinstri græn einnig efla rannsóknartengda nýsköpun og menntasetur um allt land, ekki síst í tengslum við sjávarútveg, landbúnað og ferðaþjónustu. Þannig tel ég að við stuðlum að störfum fyrir ungt fólk á landsbyggðinni. Þar sem ég hef unnið með ýmis verkefni í tengslum við nýsköpun tel ég í ljósi minnar reynslu að nauðynlegt sé að ungir frumkvöðlar með ferskar hugmyndir og nýjan kraft láti til sín taka.
Gjaldfrjáls þjónusta á grunnstigi
Strax á grunnstigi menntakerfisins verðum við vör við mismunun. Börn stunda íþróttir, tónlistarnám
og fleira og efnameiri foreldrar geta veitt börnum sínum þann kost að stunda slík áhugamál en börn þeirra efnaminni hafa ekki sömu möguleika.
Það er orðið svo að þeir sem stunda t.a.m. íþróttir þurfa að eiga allt til alls, flottustu græjurnar, flottustu merkin, auk þess sem himinhá innritunargjöld eru við lýði. Það eru okkar börn sem geta orðið fyrir mismunun, við vitum ekki hvort við munum falla undir efnameiri eða efnaminni foreldrana. Hérlendis er boðið upp á gjaldfrjálst nám í grunn- og leikskólum en við ættum einnig að greiða niður tómstundastarf og bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börnin okkar. Í því árferði sem við búum við í dag þarf að vanda vel úthlutun fjármagns, en okkur ber skylda til að hlífa ungu kynslóðinni og ættum þess vegna að láta menntastofnanir ganga fyrir.
Skólagjöld og sumarannir
Vinstri græn hafa frá upphafi barist gegn skólagjöldum sem ungir hægri menn hafa alloft reynt að koma á í Háskóla Íslands. Um leið og skólagjöld eru samþykkt ertu búin að skerða möguleika stórs hóps ungmenna á því að mennta sig. Er það sanngjarnt? Eiga ekki allir að hafa jafnrétti til náms? Jú ég tel svo vera. Ég fagna um leið nýlegri fjárveitingu sem menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, veitti til sumaranna við Háskóla Íslands 2009. Það borgar sig margfalt fyrir ríkið að auka menntun og þekkingu þjóðarinnar með því að veita námslán í stað þess að verja fjármununum í atvinnuleysisbætur.
Vinstri græn allt annað líf
Vinstrihreyfingin grænt framboð er lýðræðishreyfing sem vill skapa réttlátt samfélag á jafnréttisgrundvelli með virkri þátttöku almennings. Vinstri græn hafa ætíð barist fyrir jafnrétti fólks óháð búsetu, kyni, aldri, atvinnu og heilsu. En það sem mestu máli skiptir er að við vinnum okkar verk með heiðarleika að leiðarljósi, með hagsmuni allrar þjóðarinnar í farteskinu en ekki fárra einstaklinga eins og raunin hefur verið síðustu ár. Það erum við unga fólkið sem þurfum að ryðja lýðræðinu farveg og ýta í burtu þeirri hagsmunapólitík sem tröllriðið hefur íslensku samfélagi. Á síðustu árum hefur samfélagið hægt og rólega snúist frá því að vera sameign okkar allra til þess að vera einkaleikvöllur nokkurra einstaklinga. Því ranglæti þarf að snúa til réttlætis.
”Kostar ekki nema neitt ”– Jú mig!
23.4.2009 | 11:52
Ég er ung sveitastúlka, uppalin á landsbyggðinni, fyrrverandi og verðandi námsmaður sem notar strætó til að komast milli staða í borginni. Mér stóð ekki til boða nám á framhalds- eða háskólastigi í minni heimabyggð, ég leigi íbúð í höfuðborg Íslands, borga fyrir hita og rafmagn hjá Orkuveitunni, kaupi mér kort í Sundlaugar Reykjavíkur og hef borgað í fjögur ár skólagjöld til Háskóla Íslands. Ég vil fá frítt í strætó fyrir alla námsmenn í Reykjavík!
Frítt fyrir námsmenn í Strætó nema okkur?
Það er áhugavert að lesa á síðu Reykjavíkurborgar yfirlýsingar meirihluta borgarstjórnar frá fundi borgarráðs í byrjun júlí þar sem glaðst er yfir áframhaldandi verkefni um ,,frítt fyrir námsmenn í strætó. Ég gleðst einnig yfir því að loks hafi verið teknar upp gjaldfrjálsar strætóferðir fyrir námsmenn haustið 2007 og nú skuli því haldið áfram. Á hinn bóginn á ég erfitt með að hoppa hæð mína og stíga gleðidans þegar eins miklu ójafnræði er beitt eins og raun ber vitni. Þessar gleðifréttir eru nefnilega ekki eins gleðilegar og þær voru fyrir ári. Nú standa sex sveitarfélög í samstarfi við Strætó bs að verkefninu. Þau sveitarfélög eru, auk Reykjavíkur; Hafnafjörður, Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Álftanes. Þau hafa í samstarfi við Strætó bs tekið þá ákvörðun að aðeins þeir námsmenn sem eiga lögheimili í ofantöldum sveitarfélögum geti fengið frítt í almenningsvagna Strætó bs skólaárið 2008-2009.
Vinstri Græn krefjast jafnræðis óháð búsetu
Á flokksráðsfundi Vinstri-Grænna þann 30. ágúst síðastliðinn var því beint til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að gæta jafnræðis og veita öllum námsmönnum frítt í Strætó óháð lögheimili. Ályktun þessa get ég ekki annað en stutt heils hugar. Á Íslandi eru í boði margir skólar til framhaldsnáms. Einnig höfum við háskóla með beinum skólagjöldum eða innritunargjöldum. Útgjöld námsmanna eru því töluverð og hef ég áhyggjur af því að hækkandi gjöld geti staðið í vegi fyrir frekari menntun þeirra. Við þurfum að tryggja námsmönnum jafnan rétt óháð því hvaða nám þeir stunda eða hvaðan þeir koma af landinu. Nýjar reglur um Nemakortin hjá Strætó bs ná ekki til okkar sem komum utan af landi og skilaboðin eru skýr. Námsmönnum utan af landi er greinilega ekki fagnað á höfuðborgarsvæðinu.
Neydd til náms og útgjalda í Reykjavík
Flest ungt fólki á landsbyggðinni gengur ekki að framhaldsnámi gefnu í sinni heimabyggð. Í Reykjavík er námsframboð hins vegar mikið og fjölbreytt og því eðlilegt að þeir sem vilja öðlast góða menntun flytji til Reykjavíkur enda hafa stjórnvöld stefnt ungu fólki þangað til mennta. Þetta unga landsbyggðafólk þarf í mörgum tilfellum að flytja að heiman aðeins 16 ára og hefur þurft að borgað leigu á húsnæði og framfleyta sér sjálft að miklu leyti allt frá þeim aldri. Námsmenn með lögheimili Í Reykjavík eiga hins vegar flestir möguleika á hagstæðari framfærslu. Þeir búa oftast frítt í foreldrahúsum þar sem þeir geta gengið í ísskápinn og sest að matarborði með fjölskyldunni, jafnvel fengið lánaðan fjölskyldubílinn til að skutlast milli hverfa. Kostar ekki nema neitt býður því upp á hrópandi mismunun. Það styður síst við þá nemendur sem þurfa að framfleyta sér sjálfir og eru einir á báti í stórborginni en greiðir götu hinna sem lifa í nálægð við fjölskyldu sína. Nemar af landsbyggðinni borga allt sitt til Reykjavíkur
Eftir Draumalandið varð mér hugsað til þessarar gömlu greinar sem ég skrifaði á vefritid.is hérna árið 2007!
Hraðbraut á milli brjósta fjallkonunnar sem ber hjálm í skiptum fyrir skaut?
Ég velti stundum fyrir mér Íslandi, ferðamennsku, náttúru, hreinleika, kvenlíkama og jú jú það kemur fyrir að ég velti einnig fyrir mér karlmönnum. Það er kannski ekki skrýtið að ferðamennska og Ísland séu mér ofarlega í huga ef tekið er mið af því námi sem ég stunda. Hvort hinir þættirnir eru einungis áhugamál eða afleiðing hugmynda minna um ímynd Íslands og birtingarmynd hennar í ferðaþjónustu, veit ég ekki. Ferðamennskan á stóran hlut í að skapa ímynd Íslands út á við en hver er við stjórnvölinn þegar sú ímynd er sköpuð? Hefur Ísland þá ímynd sem við viljum hafa og á hún sér einhverja stoð í raunveruleikanum eða viljum við jafnvel reyna að skapa aðra og nýja ímynd?
Náttúran er talin vera helsta aðdráttarafl Íslands í ferðaþjónustu og byggist myndefni sem notað er til að kynna landið mest á henni en þar eru íslensk náttúra og hreinleiki tvinnuð saman til að skapa ímyndina um hið hreina. Myndirnar sýna oft hina íslensku konu í íslenskri náttúru þar sem fegurð þeirra beggja rennur saman í eitt. Ósjaldan hafa íslenskar konur verið tákn hins hreina í auglýsingum fyrir erlendan markað og hafa þá verið notuð slagorð eins og Pure, Natural og Unspoiled sem geta átt við bæði náttúrunnar sjálfa og íslensku konuna. Konur eru sýndar eins og dularfullar álfkonur, oftast heldur klæðalitlar í svörtu hrauninu eða að baða sig upp úr íslensku vatni úti í náttúrunni. Ef maður t.d. skoðar myndir á heimasíðu Bláa Lónsins eru konur yfirleitt andlit auglýsinganna eða þær sýndar í taumlausu unaðslífi með hinu kyninu.
Þú lesandi góður mannst kannski eftir umræðu sem átti sér stað upp úr árinu 2000 þegar djarfra auglýsingar í boði Flugleiða flugu um veröldina. Þar mátti sjá fyrisagnir eins og One night stand, Pester a beauty queen og Fancy a Dirty Weekend in Iceland. Snilldin í þessum auglýsingu var að nota tvíræðni með kynferðislegum undirtón í bland við vilta náttúru og farga konu, taumlausar báðar í senn. Auglýsingunum var greinilega ætlað að höfða til karla sem höfðu áhuga á náttúru, kvenfólki og villtu næturlífi.
Í kjölfar auglýsinganna var boðið upp á sérferð fyrir bandaríska karlmenn á Ungfrú Ísland. Fjallað var um ferðina í USA Today árið 2002. Þar fjallar greinahöfundur um íslenskar konur sem náttúruundur, kinnbein þeirra séu svo skörp þau geti hoggið ís og vegna fiskiáts og hreina vatnsins er húðin svo slétt og líkaminn svo fullkominn og stinnur að brjóstahaldara er ekki einu sinni þörf. Það er hreint ótrúlegt að plönuð hafi verið sérferð fyrir bandaríska karlmenn til að horfa á íslenska gripasýningu.
Íslenskar konur ganga ekki í brjóstahöldum, eða?
Sjáið þið fyrir ykkur: Icelandair býður upp á þriggja daga kvennaferð á Herra Frakkland, hvítt í morgunmat og rautt í kvöldmat borið fram með vel matreiddum karlmönnum að hætti matgæðinganna Frakka. Greinin í USA Today er hin mesta skemmtun og með ólíkindum að slík fáviska eigi sér stað. Það að íslenskar konur gangi ekki í brjóstahöldum finnst mér heldur kaldhæðnislegt, því ég er viss um að fáum löndum er eins mikið hneykslast á því ef kona ákveður að sleppa brjóstahaldaranum.
Ég hélt að birtingarmynd auglýsinganna hefði tekið nokkrum breytingum en þegar ég sat við sjónvarpið heima hjá mér með íslenskt besta nammi í heim og íslenskt bergvatn frá Vífilfelli birtist á skjánum þessi líka dulræna og kynþokkafulla auglýsing þar sem íslenska konan, full dulúðar féll svo vel inn í náttúruna að hún gekk á vatninu eins og Jésús sjálfur gerði forðum daga. Þarna er að vísu karlmaður líka í auglýsingunni en hann er í algjöru aukahlutverki. Ég fæ því ekki betur séð en að helsta birtingarmynd ímyndarinnar séu enn hreinleiki, náttúra og kvenleiki.
Vissulega höfum við ágætt vatn en alls ekki það hreinasta í heimi, við erum líklega ekki dularfyllri en aðrar þjóðir bara kannski svolítið dularfullir smáborgarar. Náttúran er einstök og frekar hrein, við eigum stærstu víðerni í Evrópu og vit manns fyllast fjallalofti þegar komið er út fyrir borgarmörkin. Þannig stendur ímyndin að einhverju leyti undir væntingum sem er nauðsynlegt til að ferðaþjónusta hérlendis eigi sér góða framtíð. Við eigum líka þrjú stór álver, Kárahnjúkavirkjun og nokkrar góðar tillögur að hraðbraut þvert yfir okkar einstöku víðerni, enn fleiri álver og olíuhreinsistöð sem höfuðprýði Íslands. Ef að þetta verður allt að veruleika hvernig verður ímyndin þá? Hraðbraut á milli brjósta fjallkonunnar sem ber hjálm í skiptum fyrir skaut? Mér hugnast ekki þessi ímynd.
Það er ekkert grín að vera íslenska konan né íslenska náttúran, bera alla þessa fegurð og standa undir væntinum. Spurningin er hvort íslenskar konur meðvitað eða ómeðvitað láti ímyndina stjórna sér. Að sama skapi verður íslensk náttúra fyrir stöðugu áreiti þeirra sem vilja nýta fegurð hennar og krafta. Nú er kominn tími til að við finnum eitthvert jafnvægi í ímyndasköpun okkar og framkvæmdagleði.
Typparör og peningabaukur í bakgarðinum
20.4.2009 | 11:51
Gömul grein af vefritinu:
Í ljósi þess að umræðan um olíuhreinsistöð er aftur komin til umfjöllunar í fjölmiðlum langar mig að velta nokkrum hlutum fyrir mér er varðar hana. Á Vestfjörðum hefur í mörg ár verið háð barátta við drauga fólksfækkunar. Sem svar við því hafa stjórnvöld og íbúar brugðist við með sköpun nýrra atvinnutækifæra og þrýstingi á betri vegasamgöngur. Það er ekki því undarlegt að Vestfirðingar staldri við þegar þeim er boðið að reisa stórfyrirtæki sem skilar mörghundruð störfum inn í samfélagið.
Sögur ganga um að Vestfirðingar skiptist í tvær fylkingar, með og á móti olíuhreinsistöð, og því velti ég því fyrir mér hversu miklu þeir fái sjálfir að ráða. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er að skoða málið gaumgæfilega, sem ég tel gott og gilt, en að mínu mati er bæjarstjóri þeirra orðinn heldur jákvæður gagnvart stöðinni. Íslenski valdapúkinn hefur komist inn undir og öllu því sem hugsanlega gæti komið í veg fyrir þessar framkvæmdir er rutt úr vegi samstundis.
Er afsal bara snýtupappír í dag?
Ég sat heima hjá mér í síðustu viku með popp í annarri og fjarstýringuna í hinni og horfði á fréttirnar hjá Ríkissjónvarpinu. Þá birtist á skjánum frétt um olíuhreinsistöðina sem gaf mér nýja sýn á þessa umræðu. Þar var fjallað um ábendingu frá Kirkjuráði um takmarkaðan umráðarétt yfir jörðinni Söndum í Dýrafirði, sem talin hefur verið ákjósanleg staðsetning fyrir stöðina.
Grundvallarrökin fyrir því var að ríkissjóður afsalaði jörðinni Söndum árið 1938 til Þingeyrahrepps sem nú er sameinaður Ísafjarðarbæ. Í afsalinu var sett sú kvöð að afsalshafa væri óheimilt að endurselja jörðina og að mikil höft væru við leigu hennar, þó hún væri ekki með öllu bönnuð. Samkvæmt vefsíðunni Bæjarins besta segir í afsalsbréfinu orðrétt að hreppsnefnd Þingeyrarhrepps f.h. Þingeyrarhrepps skuldbindi sig til að hlíta fyrirmælum um eignarumráð, hagnýtingu og meðferð jarðarinnar Sanda í Þingeyrarhreppi: Að hreppurinn leigi aldrei utanhreppsmönnum hið selda land, hvorki í heild né nokkurn hluta þess og hvorki til ræktunar, beitar né bygginga, ef slík leiga á landi úr jörðinni brýtur í bága við landþörf hreppsbúa.
Olíuhreinsistöð ekki sjálfsögð
Það er ljóst að samkvæmt þessu afsali getur ekki verið sjálfsagt að byggja olíuskrímslið á Söndum með tönkum, rörum og gufu, þó það sé hugsanlega framkvæmanlegt. Mér þótti því skrýtið, eða öllu heldur ótrúlegt, þegar bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar sagði afsal jarðarinnar enga hindrun fyrir því að hann gæti plantað sinni fínu og fáguðu olíuhreinsistöð þarna.
Í lok tilvísunarinnar hér að framan er þannig tekið til orða að hugsanlega sé hægt að beygja lögin í þá átt sem hentar. Hins vegar ætti að líta á orðalag afsalsins sem hindrun þar sem ,,hreppsbúar eigi að fá einhverju um þetta ráðið að lokum. Bæjarstjórinn fer því heldur óvarlega í yfirlýsingum sínum í Ríkissjónvarpi landsins.
Mér er spurn hvort því sé svo komið á Íslandi að ef manneskja tilheyrir réttri stétt eða hópi á Íslandi að henni séu þá allar leiðir greiðar, sama hvað lögin kveða á um? Í viðtali við bæjarstjóra kom fram að hann telur þessar kvaðir í raun vera barn síns tíma og að þær muni ekki skapa nein teljandi vandamál.
Ferðaþjónusta vs. Skrímslið
Burt séð frá þessu tel ég skyndilausnir og atgang ekki vera lausn fyrir Vestfirði. Til gamans má geta að stjórnvöld Vestfjarða gáfu út skýrslu sem kallast ,,Stóriðjulausir Vestfirðir. En um leið og þeim er boðin gullhúðuð olíuhreinsistöð á silfurfati snúa þau baki við fyrri yfirlýsingum, eins og enginn sé morgundagurinn eða öllu heldur gærdagurinn. Kannski sjá þau hana í hyllingum, þannig að þar sigli inn fjörðinn hundruð sjóræningjaskipa sem fylgjast með helstu fuglabjörgum landsins í gegnum kíkja. Er þau koma nær blasir við grasigróin typparöragarður með rússíbönum milli röranna, æðavarp á toppum þeirra, parísarhjól og flugeldar á kvöldin. Allt mjög ferðaþjónustuvænt. Eða hvað?
Ég tel olíuhreinsistöðina vera algjöru vitleysu og ekkert annað en skyndilausn og æðubunugang valdamanna. Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum brýtur algjörlega á bága við þá umhverfisstefnu sem stjórnvöld hafa lýst yfir. Hún yrði einn mesti andstæðingur ferðaþjónustunnar, sem er að verða sú atvinnugrein sem gefur einna mestar gjaldeyristekjur og fer ört vaxandi sem vistvæn atvinnugrein um allan heim og ekki síst á Vestfjörðum.
Þar að auki tel ég að öll stóriðja í litlum bæjarfélögum dragi úr frumkvöðlastarfsemi. Því til stuðnings vil ég nefna að í tengslum við nám mitt í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, fór ég austur á land haustið 2006 á meðan framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál voru í fullum gangi. Með rannsókninni vildum við skoða hvort grundvöllur væri fyrir frumkvöðlastarfsemi á Fljótsdalshéraði.
Stóriðja drepur frumkvöðlastarfsemi
Við leituðum niðurstaðna með eigindlegum rannsóknaraðferðum, þ.e. með viðtölum við fólk sem starfar í ferðaþjónustu og handiðn, bæjarstjórnarfulltrúa og fleiri. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að á meðan stórframkvæmdirnar stóðu yfir lamaðist samfélagið og öll frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun var nánast dauð. Allt snérist um þetta stóra verkefni. Margir viðmælenda minna nefndu að þeir teldu að slík stóriðja, sem byði upp á hálaunastörf fyrir meðalmanninn, hlyti að draga úr frumkvöðlastarfsemi í samfélaginu.
Ég spyr sjálfa mig hvað ég myndi gera með stóriðju í bakgarðinum heima hjá mér. Myndi ég leggja af stað í áhættusama frumkvöðlastarfsemi, vinna við eitthvað sem fangar ástríðu mína og áhuga en gæfi litlar sem engar tekjur til að byrja með? Eða myndi ég láta freistast og vinna hjá stóriðjunni í bakgarðinum þar sem ég gæti fengið þrefalt hærri laun? Líklega myndi ég kjósa launin og fórna um leið tækifærum sem liggja í frjórri hugsun minni og framkvæmdagleði.
Hvernig samfélag viljum við?
Viljum við aðeins skapa atvinnu fyrir unga fólkið sem færir þeim peninga í vasann en nýtir ekki sköpunargáfu þeirra, ástríðu og framkvæmdagleði? Viljum við að Íslendingar gefist upp og skríði inn á steypugólfið í hendur peningabaukanna og gefi nýsköpun í samfélaginu upp á bátinn? Er það samfélagið sem við viljum skapa á landsbyggðinni? Ég spyr þig lesandi góður. Svar mitt er einfalt. Nei takk!
Telma Magnúsdóttir