Eftir Draumalandið varð mér hugsað til þessarar gömlu greinar sem ég skrifaði á vefritid.is hérna árið 2007!
Hraðbraut á milli brjósta fjallkonunnar sem ber hjálm í skiptum fyrir skaut?
Ég velti stundum fyrir mér Íslandi, ferðamennsku, náttúru, hreinleika, kvenlíkama og jú jú það kemur fyrir að ég velti einnig fyrir mér karlmönnum. Það er kannski ekki skrýtið að ferðamennska og Ísland séu mér ofarlega í huga ef tekið er mið af því námi sem ég stunda. Hvort hinir þættirnir eru einungis áhugamál eða afleiðing hugmynda minna um ímynd Íslands og birtingarmynd hennar í ferðaþjónustu, veit ég ekki. Ferðamennskan á stóran hlut í að skapa ímynd Íslands út á við en hver er við stjórnvölinn þegar sú ímynd er sköpuð? Hefur Ísland þá ímynd sem við viljum hafa og á hún sér einhverja stoð í raunveruleikanum eða viljum við jafnvel reyna að skapa aðra og nýja ímynd?
Náttúran er talin vera helsta aðdráttarafl Íslands í ferðaþjónustu og byggist myndefni sem notað er til að kynna landið mest á henni en þar eru íslensk náttúra og hreinleiki tvinnuð saman til að skapa ímyndina um hið hreina. Myndirnar sýna oft hina íslensku konu í íslenskri náttúru þar sem fegurð þeirra beggja rennur saman í eitt. Ósjaldan hafa íslenskar konur verið tákn hins hreina í auglýsingum fyrir erlendan markað og hafa þá verið notuð slagorð eins og Pure, Natural og Unspoiled sem geta átt við bæði náttúrunnar sjálfa og íslensku konuna. Konur eru sýndar eins og dularfullar álfkonur, oftast heldur klæðalitlar í svörtu hrauninu eða að baða sig upp úr íslensku vatni úti í náttúrunni. Ef maður t.d. skoðar myndir á heimasíðu Bláa Lónsins eru konur yfirleitt andlit auglýsinganna eða þær sýndar í taumlausu unaðslífi með hinu kyninu.
Þú lesandi góður mannst kannski eftir umræðu sem átti sér stað upp úr árinu 2000 þegar djarfra auglýsingar í boði Flugleiða flugu um veröldina. Þar mátti sjá fyrisagnir eins og One night stand, Pester a beauty queen og Fancy a Dirty Weekend in Iceland. Snilldin í þessum auglýsingu var að nota tvíræðni með kynferðislegum undirtón í bland við vilta náttúru og farga konu, taumlausar báðar í senn. Auglýsingunum var greinilega ætlað að höfða til karla sem höfðu áhuga á náttúru, kvenfólki og villtu næturlífi.
Í kjölfar auglýsinganna var boðið upp á sérferð fyrir bandaríska karlmenn á Ungfrú Ísland. Fjallað var um ferðina í USA Today árið 2002. Þar fjallar greinahöfundur um íslenskar konur sem náttúruundur, kinnbein þeirra séu svo skörp þau geti hoggið ís og vegna fiskiáts og hreina vatnsins er húðin svo slétt og líkaminn svo fullkominn og stinnur að brjóstahaldara er ekki einu sinni þörf. Það er hreint ótrúlegt að plönuð hafi verið sérferð fyrir bandaríska karlmenn til að horfa á íslenska gripasýningu.
Íslenskar konur ganga ekki í brjóstahöldum, eða?
Sjáið þið fyrir ykkur: Icelandair býður upp á þriggja daga kvennaferð á Herra Frakkland, hvítt í morgunmat og rautt í kvöldmat borið fram með vel matreiddum karlmönnum að hætti matgæðinganna Frakka. Greinin í USA Today er hin mesta skemmtun og með ólíkindum að slík fáviska eigi sér stað. Það að íslenskar konur gangi ekki í brjóstahöldum finnst mér heldur kaldhæðnislegt, því ég er viss um að fáum löndum er eins mikið hneykslast á því ef kona ákveður að sleppa brjóstahaldaranum.
Ég hélt að birtingarmynd auglýsinganna hefði tekið nokkrum breytingum en þegar ég sat við sjónvarpið heima hjá mér með íslenskt besta nammi í heim og íslenskt bergvatn frá Vífilfelli birtist á skjánum þessi líka dulræna og kynþokkafulla auglýsing þar sem íslenska konan, full dulúðar féll svo vel inn í náttúruna að hún gekk á vatninu eins og Jésús sjálfur gerði forðum daga. Þarna er að vísu karlmaður líka í auglýsingunni en hann er í algjöru aukahlutverki. Ég fæ því ekki betur séð en að helsta birtingarmynd ímyndarinnar séu enn hreinleiki, náttúra og kvenleiki.
Vissulega höfum við ágætt vatn en alls ekki það hreinasta í heimi, við erum líklega ekki dularfyllri en aðrar þjóðir bara kannski svolítið dularfullir smáborgarar. Náttúran er einstök og frekar hrein, við eigum stærstu víðerni í Evrópu og vit manns fyllast fjallalofti þegar komið er út fyrir borgarmörkin. Þannig stendur ímyndin að einhverju leyti undir væntingum sem er nauðsynlegt til að ferðaþjónusta hérlendis eigi sér góða framtíð. Við eigum líka þrjú stór álver, Kárahnjúkavirkjun og nokkrar góðar tillögur að hraðbraut þvert yfir okkar einstöku víðerni, enn fleiri álver og olíuhreinsistöð sem höfuðprýði Íslands. Ef að þetta verður allt að veruleika hvernig verður ímyndin þá? Hraðbraut á milli brjósta fjallkonunnar sem ber hjálm í skiptum fyrir skaut? Mér hugnast ekki þessi ímynd.
Það er ekkert grín að vera íslenska konan né íslenska náttúran, bera alla þessa fegurð og standa undir væntinum. Spurningin er hvort íslenskar konur meðvitað eða ómeðvitað láti ímyndina stjórna sér. Að sama skapi verður íslensk náttúra fyrir stöðugu áreiti þeirra sem vilja nýta fegurð hennar og krafta. Nú er kominn tími til að við finnum eitthvert jafnvægi í ímyndasköpun okkar og framkvæmdagleði.