Unglegur blær yfir lista Vinstri grænna í NV-kjördæmi!
23.4.2009 | 12:40
Með því að kjósa Vinstri græn í Norðvesturkjördæmi ertu með beinum hætti að kjósa ungt fólk til verks og áhrifa. Listinn hefur einstaklega unglegan blæ yfir sér sem gefur honum sérstöðu á landsvísu. Í þriðja sæti listans, baráttusætinu, er ungur bóndi, Ásmundur Einar Daðason, 27 ára, 4. sæti listans skipar Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, 28 ára, 5. sæti listans skipa ég sjálf, Telma Magnúsdóttir, 26 ára, 7. sæti listans skipar Páll Rúnar Heinesen Pálsson, 27 ára og 8. sæti listans skipar Hjördís Garðarsdóttir 30 ára. Því til samanburðar er áhugavert að skoða aldur 5 efstu frambjóðenda annarra lista í kjördæminu en þar er yngsti frambjóðandi á lista 33 ára. Það er því nokkuð ljóst að hjá hinum framboðunum var ungt fólk ekki kosið til áhrifa á meðan að ungt fólk í framboði Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi fékk yfirburða kosningu af félögum Vg í kjördæminu. Það liggur því í augum uppi að Vinstri græn vilja gera ungu fólki kleift að hafa áhrif í verki.
Ungt fólk lætur til sín taka
Það er nokkuð ljóst að vitundarvakning hefur orðið meðal ungs fólks í kjölfar efnahagshrunsins og gjörbreyttra aðstæðna í íslensku samfélagi. Það var ekki síst yngri kynslóðin sem stóð og barði potta og pönnur til að stoppa fyrir fullt og allt þessa óráðsíu og peningapartý sem komið hafa íslensku þjóðinni á bólakaf í skuldapoll. Ungt fólk er í dag meðvitaðara um samfélagið sitt og vill og verður að hafa áhrif. Ljóst er að á næstu mánuðum og árum verða gerðar stórvægar breytingar á íslensku samfélagi og við unga fólkið sem erum stór og mikilvægur hluti af þessu samfélagi viljum koma að því. Við ætlum að fjölga Íslendingum, stofna fjölskyldur, koma okkur fyrir á vinnumarkaðnum, fjárfesta í húseign og bíl og svo mætti lengi telja. Það erum við og okkar börn sem sem þurfum að byggja hér upp nýtt og réttlátt samfélag.
Hvert mannsbarn á að eiga jafnan rétt á menntun óháð efnahag og stöðu
Vinstri græn hafa lagt megináherslu á menntamál, menntakerfi sem tryggir öllum landsmönnum jafnan aðgang að fjölbreyttri og skapandi menntun. Við viljum sjá fjölgun háskólasetra á landsbyggðinni og aðgengi unglinga að framhaldsskólum án þess að þeir þurfi að flytja að heiman 16 ára og framfleyta sjálfum sér á heimavist eða í leiguíbúð. Burtséð frá þeim kostnaði sem slíkt hefur í för með sér, þá á að tryggja ungu fólki þann kost að hafa val um menntun í heimabyggð og búa hjá fjölskyldu sinni til 18/20 ára aldurs.
Auk þessa vilja Vinstri græn einnig efla rannsóknartengda nýsköpun og menntasetur um allt land, ekki síst í tengslum við sjávarútveg, landbúnað og ferðaþjónustu. Þannig tel ég að við stuðlum að störfum fyrir ungt fólk á landsbyggðinni. Þar sem ég hef unnið með ýmis verkefni í tengslum við nýsköpun tel ég í ljósi minnar reynslu að nauðynlegt sé að ungir frumkvöðlar með ferskar hugmyndir og nýjan kraft láti til sín taka.
Gjaldfrjáls þjónusta á grunnstigi
Strax á grunnstigi menntakerfisins verðum við vör við mismunun. Börn stunda íþróttir, tónlistarnám
og fleira og efnameiri foreldrar geta veitt börnum sínum þann kost að stunda slík áhugamál en börn þeirra efnaminni hafa ekki sömu möguleika.
Það er orðið svo að þeir sem stunda t.a.m. íþróttir þurfa að eiga allt til alls, flottustu græjurnar, flottustu merkin, auk þess sem himinhá innritunargjöld eru við lýði. Það eru okkar börn sem geta orðið fyrir mismunun, við vitum ekki hvort við munum falla undir efnameiri eða efnaminni foreldrana. Hérlendis er boðið upp á gjaldfrjálst nám í grunn- og leikskólum en við ættum einnig að greiða niður tómstundastarf og bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börnin okkar. Í því árferði sem við búum við í dag þarf að vanda vel úthlutun fjármagns, en okkur ber skylda til að hlífa ungu kynslóðinni og ættum þess vegna að láta menntastofnanir ganga fyrir.
Skólagjöld og sumarannir
Vinstri græn hafa frá upphafi barist gegn skólagjöldum sem ungir hægri menn hafa alloft reynt að koma á í Háskóla Íslands. Um leið og skólagjöld eru samþykkt ertu búin að skerða möguleika stórs hóps ungmenna á því að mennta sig. Er það sanngjarnt? Eiga ekki allir að hafa jafnrétti til náms? Jú ég tel svo vera. Ég fagna um leið nýlegri fjárveitingu sem menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, veitti til sumaranna við Háskóla Íslands 2009. Það borgar sig margfalt fyrir ríkið að auka menntun og þekkingu þjóðarinnar með því að veita námslán í stað þess að verja fjármununum í atvinnuleysisbætur.
Vinstri græn allt annað líf
Vinstrihreyfingin grænt framboð er lýðræðishreyfing sem vill skapa réttlátt samfélag á jafnréttisgrundvelli með virkri þátttöku almennings. Vinstri græn hafa ætíð barist fyrir jafnrétti fólks óháð búsetu, kyni, aldri, atvinnu og heilsu. En það sem mestu máli skiptir er að við vinnum okkar verk með heiðarleika að leiðarljósi, með hagsmuni allrar þjóðarinnar í farteskinu en ekki fárra einstaklinga eins og raunin hefur verið síðustu ár. Það erum við unga fólkið sem þurfum að ryðja lýðræðinu farveg og ýta í burtu þeirri hagsmunapólitík sem tröllriðið hefur íslensku samfélagi. Á síðustu árum hefur samfélagið hægt og rólega snúist frá því að vera sameign okkar allra til þess að vera einkaleikvöllur nokkurra einstaklinga. Því ranglæti þarf að snúa til réttlætis.